logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Hamur — opnun á sýningu Hildar Henrýsdóttur

27.03.2019 13:02
Sýningin Hamur verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar laugardaginn 30. mars kl. 14-16. Listakonan Hildur Ása Henrýsdóttir (f. 1987) hefur vakið athygli fyrir einlæg og kraftmikil verk sín. Á sýningunni gerir hún að umfjöllunarefni sínu þá ramma samfélagsins sem smíðaðir hafa verið utan um konur og kvenleikann.
Hamur er uppgjör Hildar Ásu við feðraveldið og tilraun til þess að endurheimta og endurskapa hugmyndir um kvenlíkamann. Vegna notkunar á eigin líkama verður sýningin óhjákvæmilega persónuleg — en hún er um leið ópersónuleg; ferðalag listamannsins en ekki síður sameiginleg saga kvenna sem fæddar eru á hátindi klámvæðingar og útlitsdýrkunar. Hildur Ása leikur sér með framsetningu líkama síns með óþægilegum hætti, setur í gróteskt samhengi, og endurheimtir með þeim hætti yfirráðin yfir sér.
Hildur útskrifaðist frá Myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2016 og lauk BA námi í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri 2012. Hamur er fimmta einkasýning hennar. Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og stendur til 26. apríl. Opið er kl. 12-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Sýningarstjóri er Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir.
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira