logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Minningabækur

Á efri árum ritaði Halldór fjórar endurminningabækur þar sem hann sótti efniviðinn óspart á bernskuslóðir sínar, en þó í mismiklum mæli. Þótt þessar bækur séu með skáldlegu yfirbragði draga þær upp lifandi samfélagsmynd af Mosfellssveit á bernskuárum höfundar og sýna einnig hvaða hug hann bar til æskuslóðanna.

Nöfn bókanna, útgáfuár og tengsl þeirra við Mosfellssveit eru sem hér segir:

  • Í túninu heima, útg. 1975
    Bókin greinir frá bernskuárum Halldórs í Laxnesi og ýmsu í Mosfellssveit frá þeim árum. Ómetanleg heimild um sveitina frá fyrsta hluta 20. aldar.
  • Sjömeistarasagan, útg. 1978
    Bókin fjallar um þau ár þegar Halldór er í þann veginn að hleypa heimdraganum úr Laxnesi. Í fyrsta kaflanum greinir hann frá þeirri vitrun sem hann varð fyrir sjö ára í Laxnesi og átti eftir að verða afdrifarík.
  • Úngur ég var, útg. 1976
    Þessi bók greinir frá fyrstu utanför Halldórs 1919 og bernskuslóðir hans koma lítið við sögu. Þó segir hann frá sveitunga sínum Guðmundi Einarssyni frá Miðdal í Mosfellssveit (bls. 86-87).
  • Grikklandsárið, útg. 1980
    Hér segir Halldór m.a. frá Jóhanni Jónssyni skáldi og Einari Ól. Sveinssyni, seinna prófessor í íslenskum bókmenntum. Einkum greinir Halldór frá gönguferðum með þeim Jóhanni og Einari um Mosfellssveit.

Með minningabókum sínum er líkt og Halldór Laxness loki ákveðnum hring. Ungur var hann staðráðinn í að sigra heiminn á bókmenntasviðinu og tókst það. En hver vegur að heiman er vegurinn heim og í huga sínum er Halldór kominn heim á bernskuslóðir sínar: 

„Oft er ég í draumi aftur staddur í þessu túni bernskunnar, Laxnestúninu, og nú er ekki leingur til. Ég var eitt af grösunum sem uxu í þessu túni. Stundum ímynda ég mér að þetta hafi verið túnið í Völuspá, Iðavöllur, þar sem guðirnir rísa aftur eftir Ragnarök. Það var íslenskt tún."

Bókinni Í túninu heima lýkur á samnefndu ljóði, líklega því síðasta frá hendi Halldórs Laxness:

Á þessu nesi
í þessu túni
stóð bær.
Brúnklukka í mýri?
Nei, ekki meir.
En altær lind og ilmur af reyr.
Og þegar þú deyr þá lifir reyr
á þessu nesi
við þessa lind
í þessu túni
þar sem stóð bær:
Lind
Reyr

 

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira