logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Í brennidepli - maí 2018 - Ástralía og Nýja Sjáland

04.05.2018 09:59

Ástralía er minnsta heimsálfan og nær yfir ástralska meginlandið, Nýja Sjáland og ýmsar fleiri eyjar á Kyrrahafi. Ástralía og Nýja-Sjáland eru nágrannaþjóðir, en tengjast ekki síður vegna enskumælandi íbúa. Þjóðirnar tvær eiga einnig sameiginlega von um menningarlega fjölbreytni og félagslegt jafnrétti sem hefur oftar en ekki verið ógnað í gegnum tíðina, sérstaklega með ólögmætri eignaupptöku á landi frumbyggja.

Meðal þess efnis sem einkennir bókmenntir Ástralíu og Nýja-Sjálands er hvernig landslag tengist trúarlegu inntaki frumbyggja og viðkvæmu vistkerfi. Að auki gefa sögurnar mikilvæga innsýn í umbreytingu í átt að alþjóðasamfélagi frá sjónarhorni sakamanna, innflytjenda og flóttamanna, og þá sérstaklega rit maóra, frumbyggja Nýja Sjálands og frumbyggja Ástralíu „aboriginals“.

Ástralskar bókmenntir eru bæði munnlegar og ritaðar. Einkenni þessara bókmennta eru sameiginleg gildi, jafnvel þó um sé að ræða dæmigert frásagnarefni byggt á reynslu „venjulegra“ einstaklinga. Leitast er við að sýna sameiningu heildarinnar í stað aðgreiningar og ekki er verið að hylla einstaklinga fyrir hetjudáðir, nema þá til að sýna þrautseigju þeirra í óumflýjanlegum hrakförum.

Frumbyggjar Ástralíu eiga sér ríka sagna- og sönghefð ásamt þjóðtrú, sem er þeirra leið til að marka hollustu og samband við aðra, ekki síst við landið sem nærir þá. Kjarni munnlegra bókmennta frumbyggja er í raun viðhafnarsiður.

Þessi kjarni styrkir grunnhugmyndir frumbyggja um að það sem er ákveðið er ekki aftur tekið, og að fortíðin lifir áfram í núinu að eilífu. Þetta þjónar þeim tilgangi að tengja saman einstakling og landslag við andann inn i goðsagnakenndan draumaheim Altjeringa, því trú frumbyggja byggist á að verur forfeðranna lifi þar áfram.

Frásagnarviðhöfn hefur verið aðgengileg öllum aðilum samfélagsins, allt frá frásögnum kvenna fyrir yngstu börnin að hringsöng á stærri samkomum, corroborees, og felur í sér bæði fortíð og framtíð. Það sem er enn mikilvægara í þessu samhengi er leikur og framsetning frásagnanna, þ.e. ekki eingöngu munnlegur flutningur heldur einnig dans, handahreyfingar og grettur.

Oft fylgja frásögnunum teikningar ritaðar í sandinn, sem svo er sópað aftur burt; þannig verður túlkun hvers söngs eða frásagnar mjög áhrifarík. Sögumenn kynna sig, hvaðan þeir koma og hvaða tengingu þeir hafa við söguna. Vandað er til við flutninginn og lögð áhersla á að draga fram trúverðugleika sögunnar.

Munnlegar bókmenntir frumbyggjanna eru afar fjölbreyttar, því þeir eiga ekki sameiginlega tungu. Þetta var lengi vel óaðgengilegt efni, eða misskilið af fólki sem ekki var frumbyggjar, og virðist sagnahefðin hafa verið frekar flókin og erfitt að skilgreina hana.

Frumbyggjar Ástralíu í dag rita bókmenntir til að koma sinni rödd á framfæri og setja í samhengi með orðum þá raunverulegu hættu sem snýr að menningararfleifð þeirra.

Í munnlegri hefð maóra, frumbyggja Nýja Sjálands, ortu þeir, lögðu á minnið og fóru með harmatölur, ástarljóð, stríðssöngva og bænir. Maórarnir þróuðu einnig með sér goðsagnir svo skrásetja mætti fortíð þeirra og þjóðsagnir um guðina og hetjur ættbálkanna.

Eftir því sem nýlendan stækkaði á 20. öld var miklu efni ljóða og sagna safnað af Evrópumönnum sem skrifuðu upp efnið á tungumáli maóra. Goðsagnir og þjóðsagnir sem voru hvað myndrænastar voru þýddar á ensku og gefnar út sem sagnasafn, eins og Maori Fairy Tales (1908).

Sagnasafnið var lesið af evrópskum börnum eða fyrir þau, og þannig urðu ýmsar goðsagnir maóra þekktar. Má þar nefna þjóðsögurnar um elskendurna Hinemoa og Tutanekai og hetjudáðir hálfguðsins Maui, sem veiddi Norðurey Nýja Sjálands úr hafinu og tamdi sólina.

Mælskulist var og er mikilvægur hluti af menningu maóra. Hún er iðkuð á samkomustað marae ættbálkanna og felur í sér raddbeitingu og grettur ásamt höfuðhreyfingum og bendingum. Erfitt er að gera skýran greinarmun á máli og flutningi, eins og á reyndar einnig við um ritaðan texta, og ekki hefur alltaf verið auðvelt að fá vitneskju um höfund.

Tímaskyn maóra var líka þannig að goðsagnir fóru ekki með áheyrandann aftur til fortíðar, heldur var fortíðin frekar færð til nútíðar og viðburðum lýst þar.

Haka er maórískur dans sem felur í sér að allur líkaminn hreyfist í áköfum takti; líkaminn er hristur fram og aftur, dansarinn ber sér á brjóst og læri, stappar og sýnir listrænt látbragð ofbeldis. Með dansinum er sönglað og stundum gerðar andlitsgrettur til þess eins að hræða.

Á síðari hluta 20. aldar höfðu „minni háttar“ sjúkdómar Evrópumanna hörmuleg áhrif á heilsu maóra vegna veikrar mótstöðu þeirra gegn sýkingum, og virtist frumbyggjunum fara fækkandi af þessum sökum. Evrópskir fræðimenn tóku strax við sér. Munnleg hefð maóra verðskuldaði varðveislu, og keppst var við að rita eins mikið af þjóðsögum maóranna og hægt var, áður en þeir yrðu útdauðir.

Eitthvað af ritaða efninu var gefið út en megnið fór til geymslu í bókasöfnum. Það er mikið notað í kennslu, ekki síst af maórískum nemendum og fræðimönnum, sem hafa það að markmiði að endurheimta menningararfleifð sína.

Tungumál maóra er talað á Cookeyjum og Nýja Sjálandi. Frá því að tungumál maóra var lögfest árið 1987 er það annað tveggja opinberra tungumála Nýja Sjálands. Áætlað er að fjöldi þeirra sem tala tungumál maóra séu á bilinu 100 -150 þúsund.
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira