logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepil: BANDARÍSKAR BÓKMENNTIR III. hluti

06/11/2017

Bókmenntir frumbyggja Ameríku byggjast á hefðbundnum munnmælasögum og ritum sem skráð voru með aldagömlu myndletri og táknum. Sögumenn báru frásagnarhefðina áfram í gegnum aldirnar, og hún lifir áfram í verkum margra nútímahöfunda Bandaríkjanna af ættum frumbyggja.

Sherman Joseph Alexie (1966-) er einn af þeim þekktustu og skrifar bæði ljóð, smásögur og skáldsögur byggðar á eigin reynslu úr æsku á náttúruverndarsvæði Spoken-frumbyggja. Hann hefur unnið til fjölda bókmenntaverðlauna. Í skrifum sínum veltir Alexie aðallega fyrir sér þremur spurningum; hvað felur það í sér að vera frumbyggi í dag, að vera karlmaður af frumbyggjaættum og búa á náttúruverndarsvæði frumbyggja?

Afrísk-amerískar bókmenntir eiga upphaf sitt að rekja allt til áranna fyrir stjórnarbyltingu nýlendunnar. Rithöfundar af afrískum uppruna hafa skrifað bókmenntir sem eru áhrifamiklar; sýna hárfínt samfélagslegt innsæi og glögga sögu og sjálfsmynd Bandaríkjanna. Meðal þekktustu rithöfunda í þeirra röðum eru tvær konur.

Toni Morrison (1931-) sem skrifaði m.a. Ástkær „Beloved“ (1987) og Söngur Salómons „Song of Solomon“ (1977). Morrison varð þekkt fyrir að skoða reynslu svartra innan samfélags þeirra, og þá sérstaklega reynslu svartra kvenna. Hún hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1993.

Alica Walker (1944-) sem skrifar skáldsögur, smásögur og ljóð með sérstakan fókus á konur, sem gefur einstaka innsýn í afrísk-amerískan menningarheim. Purpuraliturinn „The Color Purple“ (1982) er hennar þekktasta bók og færði henni Pulitzer verðlaunin.

Fjölmenning jókst til muna eftir að létt var á lögum um innflytjendur, eins og bókmenntir seinni hluta 19. aldar bera vitni um. Margir innflytjendarithöfundar gefa góða innsýn í gamla menningarheima og að sama skapi dýpri skilning á nýrri menningu.

Þrátt fyrir að margir þessir rithöfundar taki sérstaklega fyrir sinn menningarbakgrunn þá hafa þeir átt stóran þátt í að breyta bandarískum bókmenntum, sem endurspegla mósaík menningarheima sameinaða undir fána stórveldis.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira