logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - í Brennidepli: RÚSSNESKAR BÓKMENNTIR

09/12/2016
Rússneskar bókmenntir eru verk rituð á rússneskri tungu og má rekja allt frá upphafi kristni. Bókmenntasaga Rússa hefur verið óvenjuleg og mótsagnakennd í gegnum tíðina, og hér verður stilkað á stóru.

Miklir umbrotatímar í Rússlandi hafa valdið því að hægt er að skipta sögunni í fjögur tímabil, gamla Rússland, keisaratímabilið, Októberbyltinguna og gömlu Sovétríkin. Þessar sviptingar í sögu landsins hafa haft mikil áhrif á bókmenntirnar.

Rithöfundar sem skrifa á rússnesku eiga mjög stóran lesendahóp. Þeir eru búsettir víða í löndum fyrrverandi Sovétríkjanna, eins og Hvíta Rússlandi og Úkraínu. Einnig býr fjöldi rithöfunda sem fæddir eru í Rússlandi í Evrópu, Norður Ameríku, Ísrael og víðar.

Blómaskeið rússneskra bókmennta var á 19. öld og við upphaf 20. aldar og birtist hvert meistaraverkið á fætur öðru á skömmum tíma. Það hefur vakið athygli að flest þeirra voru rituð á tímum Leo Tolstoy (1828-1910), sem skrifaði m.a. Stríð og friður og Anna Karenina, þá sérstaklega á árunum frá 1860-1880.

Alexandr Pushkin (1799-1837) á sér einstakan sess í rússneskum bókmenntum. Rússar telja Pushkin eitt fremsta þjóðskáld sitt og tákn rússneskrar menningar. Hann skrifaði ljóðaskáldsöguna Eugene Onegin (1823-31) og hefur samnefnd ópera eftir Tchaikovsky, sem byggð er á sögu Pushkins, slegið í gegn í flutningi Íslensku óperunnar í vetur.

Ivan Turgenev (1818-1883) var fyrsti rússneski rithöfundurinn sem átti mikilli velgengni að fagna Vestanhafs fyrir upphafningu á því sem vestrænt var, en fyrir vikið var hann mjög óvinsæll hjá róttæklingum, ásamt Tolstoy og Dostoyevsky.

Fyodor Dostoyevsky (1821-1881) skrifaði m.a. Glæpur og refsing (1866) og Fávitinn (1868-69), en hann var fangelsaður í Síberíu fyrir pólitískan áróður. Skrif hans höfðu ómetanleg áhrif á bókmenntir Vesturlanda.

Rithöfundurinn Anton Pavlovich Chekhov (1860-1904) var starfandi læknir á sínum tíma en ávann sér veigamikinn sess sem leikritaskáld þjóðarinnar, og er talinn einn af merkustu smásagnahöfundum sögunnar.
Það sem einkenndi bókmenntamenningu 20. aldarinnar í Rússlandi var að bókmenntunum var gert mun hærra undir höfði þar en á Vesturlöndum, þær þóttu réttlæting á tilveru rússneskrar alþýðu.

Bókmenntum og gagnrýni var ætlað að gegna því hlutverki að greina vitsmunalegan, uppbyggilegan og trúarlegan boðskap í því sem ritað var, en á Vesturlöndum var hefðin sú að aðskilja þessar greiningar.

Fram á 21. öldina voru stjórnmál og bókmenntir nátengd og rithöfundar eða gagnrýnendur gjarnan fengnir til að spá um stjórnarfar og framgang í Rússlandi.
Rússneskir kvenrithöfundar hafa farið halloka í sögu rússneskra bókmennta í gegnum tíðina. Þær voru oftar en ekki afskrifaðar sem alvöru rithöfundar í karllægu samfélagi, og litið á skrif þeirra sem ómerkileg og dæmigerð kvennaskrif.

Leið kvenna inn í bókmenntaheim Rússlands var vissulega torfarin; örðugleikar sem Vesturlandabúar gátu engan veginn gert sér grein fyrir. Skrif þeirra vörpuðu ljósi á lífsbaráttu kvenna í harðbýlu landi, á líðan þeirra og tilfinningar við að reyna halda öllu gangandi, við að reyna að finna einhverja fegurð í þeirri baráttu.

21. öldin er talin marka tímamót í sögu rússneskra kvenrithöfunda, þar sem ný kynslóð kvenna breytti bókmenntalandslagi Rússlands. Hárbeitt skrif fjögurra nútíma kvenrithöfunda gegn feðraveldisbókmenntum fyrrverandi Sovétríkjanna hafa sett þær fremstar meðal jafningja:

Lyudmila Petrushevskaya er meðal fremstu kvenrithöfunda Rússa í dag. Kvenrithöfundar sem unnið hafa til Rússnesku Booker verðlaunanna, eru Olga Slavnikova fyrir 2017 (2006), Elena Chizhova fyrir Time of Women (2009) og Elena Koliadina fyrir Cross of Flowers (2010).

Fleiri sem brutu blað í sögu rússneskra kvenrithöfunda eru Tatyana Tolstaya, sem kemur úr mikilli bókmenntafjölskyldu, og er barnabarn bróður Leo Tolstoy, Lyudmila Utilskaya og Nidna Sadur.

Fyrsti Rússinn hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1933, Ivan Bunin. Þekktasta skáldsaga hans The Village, er dökk frásögn af rússneskri alþýðu og er talin lýsandi fyrir Rússland á tímum byltingarinnar.

Aðrir rússneskir rithöfundar sem hlotið hafa Nóbelsverðlaun á sviði bókmennta eru m.a. Boris Pasternak, Mikhail Sholokhov, Aleksandr Solzhenitsyn og Joseph Brodsky.

Boris Akunin (1956-) er blaðamaður, þýðandi og rithöfundur frá Georgíu sem skrifar á rússnesku. Bækur hans eru vinsælar spennusögur sem gerast undir aldamótin 1900 og hafa verið tilnefndur til fjölda verðlauna. Árið 2000 var hann tilnefndur sem rithöfundur ársins í Rússlands og hlaut Anti-Booker verðlaunin sama ár.

Þess má geta að árið 1977 kom út fyrsta rússnesk-íslenska orðabókin og hafa háskólar Rússlands og Íslands reglulega stúdentaskipti.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira