Kronikan
Halldór Laxness var fyrst og fremst skáldsagnahöfundur og ritaði fjölmargar skáldsögur sem voru býsna hefðbundnar að byggingu. En á 7. áratugnum var ljóst af verkum Halldórs að hann var að heyja nýja glímu við skáldskaparformið sjálft, hann sneri sér að leikritun og síðan komu út þrjár skáldsögur sem voru nýstárlegar að formi:
- Kristnihald undir Jökli, útg. 1968
- Innansveitarkronika, útg. 1970
- Guðsgjafaþula, útg. 1972
Þessar bækur urðu síðustu skáldsögurnar frá hendi Halldórs Laxness.
Innansveitarkronika - Einstök meðal verka Halldórs
Innansveitarkronika er sérkennileg blanda af sagnfræði og skáldskap og einstök meðal verka skáldsins. Efniviðurinn er sóttur í Mosfellssveit og byggir m.a. á deilu sem varð vegna kirkjumála í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þá náði sveitin niður að Elliðaám og kirkjur voru í Gufunesi og á Mosfelli. Kirkjuyfirvöld ákváðu hins vegar að leggja þær niður og byggja nýja kirkju miðsvæðis í sveitinni, að Lágafelli. Ekki voru allir hrifnir af þessum ákvörðunum, einkum var mikil andstaða í Mosfellsdal gegn niðurrifi Mosfellskirkju sem var alls ekki gömul bygging, byggð 1852. Ákvörðun yfirvalda varð ekki hnekkt, Mosfellskirkja var rifin árið 1888 og sama árið reis Lágafellskirkja af grunni. Hins vegar skiluðu einstakir gripir kirkjunnar sér ekki, menn söknuðu bæði kaleiks og kirkjuklukku sem var ævaforn. Kaleikurinn fannst seinna í fórum vinnustúlkunnar Guðrúnar Jónsdóttur en klukkan var geymd að Hrísbrú í tæp 80 ár. Að Hrísbrú ólst upp Stefán Þorláksson (1895-1959). Hann þekkti söguna um klukkuna og kirkjuna frá blautu barnsbeini og honum var endurreisn Mosfellskirkju mjög hugleikin þótt ekki þætti hann neinn sérstakur trúmaður. Sem fulltíða maður bjó Stefán Þorláksson lengstum í Mosfellsdal, bæði í Reykjahlíð og Reykjadal, hann komst vel í álnir og auðgaðist m.a. á sölu á heitu vatni. Samkvæmt erfðaskrá Stefáns skyldu eigur hans renna til endurreisnar Mosfellskirkju. Hún var vígð árið 1965 eins og greint er frá í síðasta kafla Innansveitarkroniku:
„4ða apríl 1965 þegar Mosfellskirkja hin nýa var vígð, gjöf Stefáns Þorlákssonar, ein fegurst kirkja og best búin sem nú stendur á Íslandi, þá bárust henni ýmsar veglegar gjafir. Flestar komu gjafir þessar frá ættmennahópum í sókninni, niðjum þeirra manna er fyrir eina tíð höfðu séð kirkju sinni er þeir trúðu á jafnað við jörð hér á hólnum."
Fremst í Innansveitarkroniku getur höfundur þess sérstaklega að "Skírskotanir til nafngreindra manna rita skjala staða tíma og atburða þjóna ekki sagnfræðilegu hlutverki í texta þessum". Þetta er vert að hafa í huga við lestur bókarinnar, Halldór færir til atburði og persónur í tíma og rúmi og aðlagar því verki sem hann er að skapa, og var þetta reyndar alþekkt aðferð úr verkum hans.
Eitt besta dæmið um slíkt í Innansveitarkroniku er 11. kafli bókarinnar sem heitir Sagan af brauðinu dýra. Þar segir frá vinnukonu prestsins á Mosfelli, Guðrúnu Jónsdóttur, sem hélt yfir Dalinn til að baka hverabrauð en villtist upp á Mosfellsheiði og fannst loks eftir nokkur dægur. Brauðið, sem henni hafði verið trúað fyrir, hafði hún ekki snert. Þessi kafli er nokkurs konar dæmisaga um að vera trúr yfir litlu en hér sækir Halldór hins vegar efniviðinn alls ekki í Mosfellsdal heldur á Suðurnes og var það allt önnur kona en Guðrún sem lenti í þeim hremmingum sem lýst er í bókinni.11
Þrátt fyrir skáldsögulegt yfirbragð dregur Innansveitarkronika upp trúverðuga mynd af samfélaginu í Mosfellssveit á ofanverðri 19. öld. Þannig háttar til með fleiri skáldögur Halldórs Laxness, þær eru oft traustar heimildir um þá tíma sem þær gerast á.
Mosfellskirkja
Við Mosfellskirkju sumarið 1883, enskur ferðamaður í hársnyrtingu, til vinstri er íslenskur fylgdarmaður ferðafólksins sem fékk að gista í kirkjunni.
Myndin er önnur tveggja ljósmynda sem til er af þessari kirkju sem komst á hvers manns varir fimm árum síðar eins og greint er frá í Innansveitarkroniku. Kirkjan var byggð úr timbri og var eina timburkirkjan sem staðið hefur á Mosfelli.
Guðrún Jónsdóttir (1854-1936)
Guðrún Jónsdóttir er þekkt persóna úr Innansveitarkroniku. Hún var fædd árið 1854 á bænum Hamrahlíð, sem var kotbýli í grennd við Blikastaði, og stundaði alla tíð vinnumennsku á ýmsum bæjum í Mosfellssveit.
Guðrún andaðist á Æsustöðum í Mosfellsdal árið 1936 og hvílir í Mosfellskirkjugarði.
Gripir úr eigu hennar eru varðveittir á bókasafni Varmárskóla.
Ólafur Magnússon (1831-1915)
Ólafur Magnússon bóndi á Hrísbrú var einarður andstæðingur þess að Mosfellskirkja yrði rifin og kirkjuklukkan komst í vörslu hans eftir niðurrif kirkjunnar. Hún var geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða allt þar til ný kirkja var vígð á Mosfelli árið 1965.
Ólafur og Finnbjörg Finnsdóttir kona hans eru mikilvægar persónur í Innansveitarkroniku.
Ljósmyndin af Ólafi er tekin í Austurstræti í Reykjavík snemma á 20. öld en engin ljósmynd hefur varðveist af Finnbjörgu.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr."
Innansveitarkronika á rafrænu formi
Í janúar 2013 var haldið málþing um varðveislu þeirra gagna sem liggja eftir Halldór Laxness. Málþingið varð kveikjan að samstarfsverkefni um miðlun á arfleifð Halldórs Laxness og var ákveðið að velja Innansveitarkroniku sem tilraunaverkefni. Í framhaldinu var vefurinn innansveitarkronika.is opnaður árið 2014. Á vefnum er hægt að lesa bókina í heild sinni, hlusta á upplestur skáldsins og afla sér fróðleiks um sögusviðið og sögupersónur.
Vefurinn um Innansveitarkroniku byggir á samstarfi Gljúfrasteins, Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns, Ríkisútvarpsins, Forlagsins, verkfræði – og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands og fjölskyldu Halldórs Laxness.