Halldór hleypir heimdraganum
„En brott eg fór“
Bernskuskrif Halldórs í Laxnesi urðu flest eldi að bráð en hann hélt ótrauður áfram á rithöfundabrautinni. Fyrsta skáldsaga hans, Barn náttúrunnar, kom út árið 1919 þegar höfundur var 17 ára, sama árið lést faðir hans.
Ungskáldið hleypti snemma heimdraganum úr Mosfellsdal og settist á skólabekk í Reykjavík en námið varð endasleppt. Fyrr en varði var Halldór frá Laxnesi kominn út í grænu lönd og síðla árs 1919 yrkir hann vísukorn sem má telja merkilega stefnuyfirlýsingu hjá 17 ára unglingi:
Ég ætla að tala við kónginn í Kína
og kanski við páfann í Róm.
Og hvort sem það verður til falls eða frægðar
þá fer ég á íslenskum skóm.
Rithöfundurinn ungi lét engan bilbug á sér finna, skrifaði stöðugt og var staðráðinn í að sigra heiminn.
Á 3. áratugnum snerist hann til kaþólskrar trúar og tók upp nafnið Kiljan.
Sumarið 1925 gerði Halldór víðreist, dvaldi í klaustri í Lúxemborg um hríð og á Sikiley ritaði hann skáldsögu sína Vefarinn mikli frá Kasmír. Sagan kom út árið 1927 og olli nokkrum deilum í íslensku samfélagi. Höfundurinn var þó fjarri góðu gamni, hafði haldið vestur til Bandaríkjanna, þar sem hann dvaldi í tvö ár. Þar snerist hann til sósíalisma og ritaði m.a. beinskeytta gagnrýni á íslenskt samfélag.
Á meðan skáldið frá Laxnesi lagði undir sig lendur andans beggja vegna Atlansála var flest með kyrrum kjörum í Mosfellssveit. Sigríður móðir Halldórs seldi Laxnesjörðina og flutti búferlum til Reykjavíkur árið 1928 og Halldór skynjaði að tengsl hans við bernskuslóðirnar myndu rofna. Hann ritaði því Helgu systur sinni bréf þar sem hann lagði til að fjölskyldan héldi eftir litlum hluta jarðarinnar: „Ég sé, að þið ætlið að selja jörðina og hef ég náttúrlega ekkert við því að segja, en þó hefði ég viljað að þið hélduð eftir dálitlum skika í kring um gljúfrin og réttindum til að nota vatnsorkuna í fossinum."
Áður hafði Halldór rómað þetta landsvæði í frásögunni Steinninn minn helgi þar sem hann sagði m.a.:
„Það er næstum ótrúlegt og einginn skilur það í fljótu bragði, að ég hef geingið um völundarhús mannlífsins sal úr sal, um sali gleðinnar og sorganna, um vonanna sal og sal örvæntínganna, og alla hina salina, og samt hefur ekkert megnað að svala þrá minni, hinni instu þrá minni; hvergi hef ég fundið bergmál við helgimáli hjarta míns nema í einum steini í heimahögum mínum. Aðeins í einum grásteini sem stendur uppá dálitlum hól og ber við himin í holtinu fyrir ofan bæinn heima.
„Steinninn stendur uppá hæðinni, og milli hans og gljúfursins er íslenskur lýnghvammur, og hann hefur verið Eden bernsku minnar."
Halldór magnaði bernskuslóðirnar í hæstu hæðir í skrifum sínum og ástæða er að veita kaflanum hér að ofan sérstaka athygli því hér ræðir hann um „gljúfrastein" þar sem hann reisti hús sitt í fyllingu tímans og bjó um hálfrar aldar skeið.
En á þriðja áratugnum átti Halldór ekkert athvarf lengur í Mosfellsdal eftir að móðir hans flutti til Reykjavíkur. Hann leitaði bernskuslóðanna þó sífellt aftur, fékk aðstöðu til að rita hluta af skáldsögu sinni Sjálfstæðu fólki í Reykjahlíð í Mosfellsdal á 4. áratugnum og árið 1930 orti hann mikinn kvæðabálk, sem hann nefndi Alþíngishátíðin. Fyrsti hluti kvæðisins sýnir vel hug Halldórs til æskustöðvanna.