Bernskuár í Laxnesi
„þegar þú verður sautján ára ...“
Eftir að fjölskyldan flutti að Laxnesi fékk bernskuveröld Halldórs nýjar víddir, drengurinn nærðist á töfrum náttúrunnar og nið aldanna sem hann nam ekki síst af vörum ömmu sinnar, Guðnýjar Klængsdóttur, en hún bjó einnig á heimilinu.
Þegar Halldór Laxness flutti ræðu á nóbelshátíð í Stokkhólmi þann 10. desember 1955 minntist hann sérstaklega Guðnýjar ömmu sinnar og sagði að þegar honum barst til eyrna að hann hafi fengið nóbelsverðlaunin hafi hann hugsað „sér í lagi til hennar ömmu minnar gömlu sem var búin að kenna mér ótal vísur úr fornöld áður en ég lærði að lesa.
Guðný Klængsdóttir (1832-1924), móðuramma Halldórs Laxness. Ljósm.:Sigfús Eymundsson.
Ég hugsaði, og hugsa enn á þessari stundu, til þeirra heilræða sem hún innrætti mér barni: að gera aungri skepnu mein; að lifa svo, að jafnan skipuðu öndvegi í huga mér þeir menn sem eru kallaðir snauðir og litlir fyrir sér; að gleyma aldrei að þeir sem hafa verið beittir órétti eða farið góðra hluta á mis, þeir sem hafa verið settir hjá í tilverunni og þeir sem öðrum mönnum sést yfir - einmitt þeir væru mennirnir sem ættu skilið alúð, ást og virðíngu góðs dreings umfram aðra menn hér á Íslandi."
Í samræmi við þessa lífskoðun sína stofnaði Halldór ásamt öðrum börnum úr dalnum félag sem hét Barnafélag Mosfellsdalsins. Börnin höfðu það m.a. á stefnuskránni að blóta ekki og vera hlýðin og góð. Helstu heimildir um þetta félag eru félagslögin, sem Halldór skrifaði niður tíu ára gamall, og bréf sem hann ritaði á bernskuárum til æskuvinar síns Ólafs Þórðarsonar (1904-1989) á Æsustöðum, seinna á Varmalandi í Mosfellsdal. Bréfin og lögin eru meðal þess elsta sem varðveist hefur með hendi Halldórs.
Annars var Halldór á þessum árum þekktur sem Dóri í Laxnesi og þótti sérstakur piltur. Það var snemma ljóst að hann yrði hvorki bóndi né vegagerðarmaður eins og faðir hans, ritstörfin áttu hug hans allan og sú ástríða tengdist ákveðnum atburði sem gerðist þegar hann var sjö ára:
„Páskamorgun þegar ég var sjö ára, eldri hef ég valla verið, þá fékk ég vitrun fyrir dyrum úti. Það var heima í Laxnesi. Ég var á biflíusöguárunum, enda held ég ekki leiki vafi á því að sú vitrun sem ég fékk hafi verið smitun af loftsýn Páls postula.
Sólin var risin upp dansandi sem hæfir þessum himnakroppi á páskum, eins þó kalt sé í veðri. Ég stend bakatil við húsið, á hlaðhellum forna laxnessbæarins, í þessum blæ af upprisu, ögn kaldranalegum, og horfi í austur; og sem ég stend þar þá er hvíslað að mér utanúr alheimi þessum orðum:
þegar þú verður sautján ára muntu deya.
Fyrst varð ég dálítið hræddur.
Síðan fór ég að hugsa.
Sem betur fór voru tíu ár til stefnu."
Eftir þetta sest Dóri í Laxnesi við skriftir og skrifar og skrifar eins og hann eigi lífið að leysa í orðsins fyllstu merkingu.