Auður og Halldór flytja að Gljúfrasteini
Á 4. áratugnum kom út hvert stórvirkið á fætur öðru frá hendi Halldórs: Salka Valka, Sjálfstætt fólk og Heimsljós. Hann gerði víðreist, skrifaði mikið á erlendri grund eða kom sér upp aðstöðu hér á landi þar sem hann gat einangrað sig frá heimsins glaumi.
Um miðjan fimmta áratuginn bjó Halldór í Vesturbæ Reykjavíkur en það var ljóst að æskustöðvarnar heilluðu og einn góðan veðurdag tilkynnti hann heitkonu sinni, Auði Sveinsdóttur að hann hygðist byggja hús í Mosfellsdal.
Auður greinir frá þessu í ævisögu sinni: „Halldór vildi hafa húsið sveitalegt, einfalt og ekkert óþarfa tildur. Við vorum sammála um þetta. Hann var á þessum tíma önnum kafinn að skrifa Íslandsklukkuna austur á Eyrarbakka, og treysti mér til að hugsa fyrir innréttingu og húsbúnaði.
Sjálfur er Halldór stundum svolítið hjálparvana eins og Ljósvíkingurinn. „Þú skalt ráða framkvæmdum", sagði hann. „Ég get ekkert nema opnað budduna!"
Þetta var galtómt hús. Við áttum að heita má ekki önnur húsgögn en þau sem stóðu af tilviljun á Vesturgötunni hjá Halldóri, þar á meðal skosk forláta standklukka frá 18. öld. Dönsk vinkona mín, Birta Fróðadóttir innanhússarkitekt og húsgagnasmiður sem var þá nýkomin frá Danmörku, gift æskuvini okkar systra, Jóhanni Jónssyni sem síðar varð garðyrkjubóndi í Dalsgarði, tók að sér að búa húsið innan. Vikum saman hittumst við nærri daglega." 8
Daglegt líf á Gljúfrasteini
Þau Auður og Halldór gengu í hjónaband síðla árs 1945. Þau eignuðust tvær dætur, Sigríði og Guðnýju. Gljúfrasteinsheimilið varð hlýlegt og sérstakt og vel búið listaverkum. Þar varð mjög gestkvæmt, m.a. gengust þau hjónin fyrir tónleikum á heimili sínu þar sem heimsþekktir hljóðfæraleikarar stigu á stokk og léku fyrir boðsgesti.
Halldór og Auður ásamt Sigríði og Guðnýju í skrifstofunni á Gljúfrasteini.
Þrátt fyrir fasta búsetu í Mosfellsdal frá 1945 var Halldór mikið á faraldsfæti vegna starfs síns sem rihöfundur, t.a.m. ferðaðist hann mikið þegar hann var að viða að sér efni í skáldsöguna Gerplu sem kom út árið 1952. Hinu er ekki að neita að með fastri búsetu í Mosfellsdal efldust tengsl Halldórs við hans heimabyggð. Hann hélt t.d. ræðu við vígslu félagsheimilins Hlégarðs í mars 1951 og sagði m.a.:
„Ég vil hefja mál mitt á því að árna héraðsbúum heilla á þessum upplúkníngardegi hins nýa samkomuhúss sem hér hefur verið reist með glæsibrag sem vera mun einsdæmi til sveita á Íslandi. Mér þykir viðkunnanlegt nafnið sem þetta félagshús hefur hlotið, það mætti vera sannnefni á tvennan hátt, í fyrsta lagi vegna þess húsið er eftir smekk nútímans reist niðrí dæld eða lág, í hléi fyrir mesta vindinum, eða að minsta kosti í meira hléi en ef það hefði verið sett upp á hól einsog fornmenn voru vanir að setja sín hús; og í öðru lagi á slíkt hús sem þetta að vera sveitúngum skjól og afdrep sem þeir leiti til úr stormviðrum hversdagslífsins og finni skemtun og mentun: Hlégarður. Já það er ekki hægt að segja annað en Mosfellssveit hafi tekið undir sig stökk í framförum með því að koma upp samkomuhúsi af slíkum stórhug og myndarskap sem þetta er; og þeirra manna er staðið hafa straum af þessu verki mætti leingi minnast hér í sveitinni.“ 9
Gljúfrasteinn byggður 1945
Gljúfrasteinn í Mosfellsdal var byggður úr landi Laxness árið 1945. Esjan í baksýn en fremst til vinstri er Kaldakvísl, milli hússins og árinnar hefur nú risið fallegur skógarlundur. Til hægri við húsið er steinninn sem var Halldóri afar kær allt frá bernskuárum og um hann ritaði hann söguna Steininn minn helgi. Að Gljúfrasteini bjó Halldór ásamt fjölskyldu sinni um hálfrar aldar skeið.