logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Skynjun - Má snerta - Sýningaropnun föstudaginn 16. ágúst kl. 16-18

13/08/2019
Skynjun - Má snerta
Myndlist fyrir blinda og sjónskerta

Gerður Guðmundsdóttir (f. 1945) opnar sýninguna Skynjun – Má snerta í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 16. ágúst kl. 16-18. Gerður lauk prófi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hefur unnið sjálfstætt að myndlist síðan. Hún hefur búið víðs vegar um heim og sótt innblástur í handverk ólíkra þjóða. Helsti efniviður hennar hefur verið íslenska ullin sem hún vinnur á ýmis konar spennandi máta. 
Á sýningunni Skynjun – Má snerta er brotin sú almenna regla að ekki megi snerta listaverkin. Sýningargestir eru þvert á móti hvattir til að snerta verkin og skynja þau með snertingu. Sýningin er sérstaklega hönnuð með þarfir blindra og sjónskerta í huga en aðrir sýningargestir geta að sjálfsögðu einnig notið verkanna og eru allir velkomnir. Í sýningarskrá stendur: „Öll verkin með einni undantekningu eru þrívíddarverk, hengd á veggi, dingl-andi, fljót-andi, svíf-andi, leik-andi, ið-andi, skríð-andi út í rýmið og velt-andi um gólfið. Gestir geta gengið í kringum verkin og meðfram þeim og fundið fyrir hughrifum við snertingu ólíkra áferða. Hvert verk segir sína sögu og leiðir gesti áfram í gegnum áþreifanlegan söguþráð: skynjunin er ævintýrið“.
Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2 í Mosfellsbæ. Hann er opinn kl. 12-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Síðasti sýningardagur sýningar Gerðar er 13. september. Aðgangur er ókeypis.
Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira