logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepli: DANSKAR BÓKMENNTIR

04/04/2017
DANSKAR BÓKMENNTIR – APRÍL 2017

16. apríl er afmælisdagur Margrétar Danadrottningar (f. 1940) sem er haldinn hátíðlegur í Danmörku ár hvert. Þjóðhátíðardagur Dana er hins vegar 5. júní; en þann dag var stjórnarskráin staðfest árið 1849.

Áhugi Margrétar drottningar á listum og fornleifafræði er vel þekkt, en hún hefur einnig fengist við þýðingar af erlendum málum yfir á dönsku og skrifaði bók um sögu Danmerkur, De dybeste rödder (2016).

Danskar bókmenntir eiga upphaf sitt að rekja til goðafræði Norðurlanda og fyrstu rúnaristanna. Bókmenntaarfurinn telur handrit, þjóðkvæði frá miðöldum, sálma, harmleiki, skáldsögur, smásögur og ljóð. Þrátt fyrir lítið tungumálasvæði eru danskar bókmenntir mikið þýddar og koma fjölmargir mikilsvirtir rithöfundar þaðan.

Áhrifamestu rithöfundar danskra bókmennta:

Nikolaj Grundtvig (1783-1872) sem lagði grunn að þjóðerniskennd Dana með heimspeki sinni.

H. C. Andersen (1805-1875) skrifaði fjölda ævintýra sem hafa verið þýdd á fjölda tungumála.

Sören Kierkegaard (1813-1855) heimspekingur sem talinn er faðir tilvistarstefnunnar.

Karen Blixen (1885-1962) sem skrifaði um líf sitt í Afríku á nýlendutímabilinu og einnig skáldaðar frásagnir sem gerast um heim allan; en hún er þekktust undir dulnefninu Isak Dinesen. 

Nútímahöfundar eru meðal annarra:
Jane Aamund (f. 1936) blaðamaður og rithöfundur er meðal mest lesinna rithöfunda Dana og hefur skrifað fjölda bóka. Íslendingar þekkja hana kannski einna helst fyrir Klingivals trílógíuna.

Jussi Adler-Olsen (f. 1950), einn vinsælasti spennusagnahöfundur Dana, hefur endurtekið toppað metsölulista Danmerkur.

Peter Höeg (f. 1957) hlaut norrænu glæpasagnaverðlaunin, Glerlykilinn, fyrir Lesið í snjóinn (Fröken Smillas fornemmelse for sne, 1992).

Jens Christian Gröndahl (f. 1959) er þekktastur vestan hafs fyrir bækur er fjalla um ást, missi og sambönd, en hann vann dönsku bókmenntaverðlaunin „De Gyldne Laurbær“ fyrir bók sína Lucca (1998).

Naja Marie Aidt (f. 1963) rithöfundur er fædd á Grænlandi og ólst upp þar og í Kaupmannahöfn, en Grænland á sterk ítök í hennar skrifum. Aidt fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir smásagnasafnið
Bavíani (2006), hefur skrifað fjölmörg ljóð og fyrsta skáldsaga hennar er Skæri, blað, steinn (Sten, Saks, Papir, 2012).

Jakob Ejersbo (1968-2008) var byltingakenndur rithöfundur sem dó fyrir aldur fram. Bók hans Útlaginn (1998) byggist á reynslu hans af því að alast upp í Tanzaníu.

Danmörk býr yfir ríkri bókmenntahefð allt frá upphafi og mikilli fjölbreytni. Vaxandi áhugi er á skandínavískum rithöfundum, eins og Stieg Larsson, Jo Nesbö, og dönsku höfundunum Adler-Olsen, Sara Blædel, Jesper Stein og Lene Kaaberböl.

Aðeins þrír danskir rithöfundar hafa unnið til bókmenntaverðlauna Nóbels, Henrik Pontoppidan og Karl Adolph Gjellerup 1917, og Johannes V. Jensen 1944.

Á tímum rafrænna miðla eru bækur enn mjög vinsælar í Danmörku. Rannsókn frá 2004 sýnir að fleiri en 25% fullorðinna lesa skáldsögur í hverri viku. Árið 2010 voru 1.717 skáldsögur gefnar út á dönsku og sama ár voru 31 miljón bóka skráðar í dönskum bókasöfnum, sem eru um 521 talsins.
Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira