logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Stingur í stúf opnar í Listasal Mosfellsbæjar

18/03/2021

Sýningin Stingur í stúf eftir Harald Sigmundsson verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 19. mars kl. 16-18. Haraldur (f. 1980) er með B.A.-gráðu frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands og M.A.-gráðu í kennslufræðum frá sama skóla. Hann starfar sem myndlistarkennari í Krikaskóla í Mosfellsbæ. Haraldur hefur tekið þátt í ýmsum sýningum en þetta er fyrsta einkasýning hans í átta ár og í fyrsta sinn sem hann sýnir í Listasal Mosfellsbæjar.

 

Verk Haraldar eru glettin og litrík en líka hæðin og dimm. Listamaðurinn hefur skapað sinn sérstaka stíl sem hann kallar dropastíl, en hann fæst með því að sprauta málningunni úr poka með rjómasprautustút svo hún myndi efnismikla dropa. Þetta gefur verkunum meiri þrívídd en í hefðbundinni punktalist (pointillismi). Meginstefið í sýningu Haraldar er hans nærumhverfi, tilvera hans og landið. Í mörgum verka sinna fjallar hann um þjóðleg séreinkenni Íslands en dauðinn er einnig eitt viðfangsefna.

 

Stingur í stúf lýkur 16. apríl. Opið er kl. 12-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Hjólastólaaðgengi er gott. Grímuskylda fullorðinna er í gildi.

 

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira