logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Áfram streymir í Listasal Mosfellsbæjar 27. október - 30. nóvember.

24/10/2018
Laugardaginn 27. október 2018 kl. 14 - 16 verður Áfram streymir, sýning Kristínar Tryggvadóttur á blekmyndum, opnuð í Listasal Mosfellsbæjar. Sýningin er opin til og með 30. nóvember. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Kristín Tryggvadóttir er fædd í Reykjavík árið 1951. Myndlistarferill hennar hófst árið 1970 er hún nam við Kennaraháskóla Íslands með myndlist sem valgrein m.a. undir handleiðslu Benedikts Gunnarssonar myndlistarmanns. Þaðan lágu leiðir í Myndlista- og handíðaskólann, Myndlistaskóla Reykjavíkur og Myndlistaskóla Kópavogs. Kristín á að baki margar einkasýningar og hefur tekið þátt í samsýningum heima og erlendis m.a. á Ítalíu, í Danmörku, Bandaríkjunum, Svíþjóð, Skotlandi og Englandi.

Vinnustofuna ART 11 Auðbrekku 4 Kópavogi stofnaði Kristín árið 2007 í félagi við fleiri listamenn og vinnur þar að verkum sínum við mikið útsýni og fallega birtu. Vorið 2013 hóf hún í samstarfi við fleiri listamenn rekstur Anarkíu listasalar, síðar ARTGallery Gátt í Kópavogi. Kristín er félagi í Sambandi íslenskri myndlistarmanna og Íslenskri grafík.

Verk Kristínar spegla gjarnan áhuga hennar á hinum óræðu og mikilfenglegu náttúruöflum, hinum smæstu og stærstu, þar sem gífurlegir kraftar takast á og skilja eftir sig mikla fegurð. Efnistökin eru aðallega olía, akrýl, vatnslitir, teikningar og kol, en blek og ýmis fljótandi efni sem sameinast og mynda streymi á fletinum tóku alveg yfir við vinnslu verkanna sem hér eru kynnt á sýningunni Áfram streymir.

Listakonan lýsir vinnuferlinu þannig: „Áfram streymir tengist hugleiðingum mínum um að leggja af mörkum það besta sem mér er unnt og sleppa svo tökunum. Þá hefst sjálfstætt ferli sem tekur breytingum fyrir tilstuðlan utanaðkomandi áhrifa sem marka spor sín í efnið. Ég get einungis vonað að það streymi eftir góðum farvegi og fái farsæla lokamynd.“
Til baka

Myndir með frétt

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira