logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Ný verk – Guðni Gunnarsson og Ingirafn Steinarsson

12.09.2018 16:12
Listamennirnir Guðni Gunnarsson og Ingirafn Steinarsson opna samsýningu í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 14. september. Til sýnis verða ný verk en undanfarin misseri hafa báðir listamennirnir unnið tvívítt, annarsvegar samklipp og hinsvegar teikningar. Í verkum Guðna gefur að líta margbreytilegar súrrealískar fígúrur samsettar úr fundnu myndefni, tímaritum og dagblöðum. Verk Ingarafns eru samhverfar teikningar, úr trélitum, álíkar spengingum sem minna samtímis á fljótandi síkadelísk form og svífandi geimstöðvar.

Aðdraganda sýningarinnar má rekja til samsetu listamannanna í matarboði þar sem kom í ljós að báðir væru að vinna með einfalda tvívíða framsetningu á hugðarefnum sínum.

Ingibjörg Magnadóttir listamaður skrifar hugleiðingu um verkin og í texta sínum segir hún:

„Hugur okkar og úrvinda líffærið heilinn munu segja þér sögu. Kannski af ketti með mannsaugu og steinsteypta hryggjarsúlu, veruleikinn í broti af broti, samsettu broti. Hinn teygjanlegi heili og skynvillan, leið til að losa um. Forritið er ólíkt heilanum ósveigjanlegt því það mun ávallt reiða sig á geometríu. Ekkert líf, engin list, ekkert vatn. Sumir segja að heilinn sé tölva, líkaminn vél og fjölskyldan fyrirtæki. Afmennskunin er algjör. Samlíkingin er óhugguleg, köld án lífs. Án kjarna, án samkenndar, án skilnings, án ástar.“

Sýningin er opin 12-18 virka daga og 13-17 á laugardögum. Hún stendur til 19. október og aðgangur er ókeypis.

Guðni Gunnarsson útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2000 og Goldsmiths College-MFA 2007. Samhliða myndlist hefur Guðni unnið í dansleikhúsi og tónlist með listahópunum Poni og Skyr Lee Bob og sýnt verk m.a. í Pompidou í Paris, Sophiensalle í Berlín, Kiasma í Helsinki, White Box Gallery í New York, Kaaitheater í Brussel, Listasafni Íslands, Borealis Festival í Caen og á Listahátíð í Reykjavík. Meðal annarra verkefna má nefna verkefnastjórn og uppsetningu sýninga í Listasafni Íslands og fjögurra ára setu í stjórn Nýlistasafnsins. Guðni var tilnefndur til Celeste Art Price-UK árið 2006 og Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir textagerð árið 2013. Þá hefur hann unnið sem leikmunahönnuður fjölda verka í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Íslensku óperunni.

Ingirafn Steinarsson lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1999 og útskrifaðist með MA-gráðu frá Listaháskólanum í Malmö árið 2006. Ingirafn bjó og starfaði í Reykjavík eftir námsdvölina í Svíþjóð en flutti til Seyðisfjarðar árið 2014. Hann hefur sýnt verk sín á innlendum sem erlendum sýningarvettvangi samtímalistar og hefur m.a. haldið einkasýningar í Suðsuðvestur, Reykjanesbæ, Gallerý Vegg, Akureyri og D-sal Listasafns Reykjavíkur. Ingirafn hefur hlotið opinbera styrki, þ.m.t. listamannalaun, og hlaut dvalarstyrk frá Evrópusambandinu árið 2006 til að dvelja í Mons, Belgíu. Samhliða listsköpun hefur Ingirafn starfað sem tæknimaður í Listasafni Reykjavíkur, kennari í Netstöðinni og tæknimaður í Nýlistasafninu. Vefsíða: http://this.is/ingirafn/


Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira