logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Sýningaropnun föstudaginn 11. maí kl. 16.

07.05.2018 13:41
Sýningin Kristján og Loji umpotta verður opnuð í Listasal Mosfellsbæjar föstudaginn 11. maí kl. 16. Sýningin er hluti af hátíðinni List án landamæra og er samsýning Kristjáns Ellerts Arasonar og Loja Höskuldssonar.
Kristján Ellert Arason er fæddur árið 1958 og hefur síðustu níu ár unnið að myndlist á vinnustofum Sólheima. Loji Höskuldsson fæddist árið 1987 og er með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Frá haustinu 2017 hafa þessir tveir listamenn unnið að verkum fyrir sýninguna Kristján og Loji umpotta. Listamennirnir hafa þó einungis hist tvisvar þessa átta mánuði sem þeir hafa unnið saman þar sem Loji er búsettur í Svíþjóð. Samvinnan hefur þó gengið prýðilega og hefur orðið að nokkurs konar leik. Þannig saumar annar út hluta myndarinnar, t.d. blómapottinn eða blómið, og sendir hinum, sem klárar myndina. Það er erfitt fyrir áhorfandann að sjá hvor hefur saumað hvaða part verksins en Kristján og Loji eru hálfgerðir listabræður. Báðir vinna þeir útsaumsverk á brúnan striga, listaval í verkum þeirra er svipað, þeir hafa óbilandi áhuga á mismunandi útsaumsaðferðum og sækja innblástur sinn í nærumhverfi. Afrakstur samvinnunnar eru 13 nýjar plöntur sem fá að blómstra á hátíðinni List án landamæra í ár.

Sýningin stendur til 15. júní. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira