logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepli: Færeyskar bókmenntir – mars 2018

06/03/2018
 

Í Færeyjum býr þjóð skálda og rithöfunda, og dálæti á skáldskap og frásögnum liggur djúpt í færeyskri menningu.


Allt fram á 20. öld var danska opinbert tungumál í Færeyjum, og því sköpuðu Færeyingar menningu sína með söng og dansi í stað ritaðs efnis. Einangruð þjóð í Norður Atlantshafi tók upp alþýðlegar germanskar og norrænar bókmenntir frá miðöldum; endurnýjaði í sagnadansi og varðveitti.

Færeyskur sagnadans er viðurkenndur meðal alþjóðlegra fræðimanna sem einstakt framlag til heimsbókmenntanna og eru áhrif hans sýnileg í nútímabókmenntum Færeyja.

Bókmenntir Færeyja sýna andstæður þess gamla og nýja, milli hefða og nýbreytni. Í nútíma ljóðagerð Færeyinga er að finna mismunandi nálganir að hefðbundnu efni og marktæk áhrif samtímabókmennta utan úr heimi. Færeyskar bókmenntir hafa skapað sér sinn sess og eru hluti af bókmenntasögu Evrópu.

Færeyski rithöfundurinn William Heinesen (1900-1991) er heimsþekktur á sviði nútímabókmennta og skrifaði bæði ljóð og skáldsögur. Efnið sótti hann í upprunann sem smækkaða ímynd alheimsins, bæði félagslegt og sálfræðilegt efni.

Þetta kemur glöggt fram í verki Heinesens Glataðir snillingar eða á frummálinu De fortabte spillemænd (1950). Sagan er dramatísk örlagasaga sem gerist í Þórshöfn í Færeyjum á umbrotaárum fyrri heimsstyrjaldarinnar og er talin ein af hans fremstu sögum. Heinesen skrifaði allar bækur sínar á dönsku, og þær hafa verið þýddar mörg tungumál. Hann kom nútímabókmenntum Færeyja á heimskortið.

Jörgen-Frantz Jacobsen (1900-1938) rithöfundur og frændi Heinesens komst líka á heimskortið fyrir skáldsöguna Barbara (1939) sem einnig var skrifuð á dönsku og þýdd á mörg tungumál og hefur auk þess verið kvikmynduð. Á fyrri hluta 21. aldar varð mikil þróun á sviði ritaðra færeyskra bókmennta.
 
Ein vinsælasta klassík færeyskra bókmennta er Feðgar á ferð, Fedgar á ferd (1940), eftir Hedin Brú (Hans Jakob Jacobsen) (1901-1987). Bókin er einstök lýsing á átökum milli hins nýja og gamla í færeysku samfélagi um miðja 21. öld.

Gunnar Hoydal (1941-)
varð þekktur fyrir söguna Undir suðurstjörnum (1991). Í sögunni er tvinnað saman færeyskri menningu og uppruna menningarheima Suður Ameríku. Gunnar hefur tvisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Carl Jóhan Jensen (1957-) er rithöfundur, ljóðskáld og gagnrýnandi. Jensen fékk mikla athygli gagnrýnenda innan Færeyja sem utan fyrir nýstárlega skáldsögu sína Ó : sögur um djöfulskap, Ó : sögur um djevulsskap (2005).

Bókin er mikilfengleg skáldsaga um þrjá ættliði og samskipti þeirra í Færeyjum þar sem frásagnir um djöfulskap eiga sér upphaf og endi. Ó : sögur um djöfulskap er full af fáránlegum húmor og jafn grípandi og glæpasaga. Bókin var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Undanfarin ár hafa verk færeyskra rithöfunda og skálda verið þýdd og gefin út utan Færeyja. Nefna má rithöfundana Jóanes Nielsen, Tórodd Poulsen, Marjun S. Kjelnæs og Hanus Kamban. Barnabækur hafa átt ótrúlegum vinsældum að fagna erlendis, má þar nefna Bárð Oskarson og bók hans A Dog, a Cat and a Mouse (2004).

Færeysk skáld og rithöfundar eru meðvituð um hefð ljóða- og sagnalistar eyjanna sem á sér djúpar rætur, og þau færa sig af öryggi inn á vettvang heimsbókmenntanna. (faroeislands.fo)



 

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira