logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepli: Breskar bókmenntir – Jan/feb. 2018

22/01/2018

Hér er ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Efnið er yfirgripsmikið og saga breskra bókmennta löng og viðamikil. Því er stiklað á stóru.

Breskar bókmenntir eru megin hluti ritaðra verka sem skrifuð eru á enskri tungu af íbúum Bretlandseyja, að Írlandi meðtöldu. Stór hluti þeirra bókmenntaverka sem skrifuð eru á ensku utan Bretlandseyja heyra undir annað; amerískar, ástralskar, kanadískar og nýsjálenskar bókmenntir.

Rekja má upphaf breskra bókmennta til Bjólfskviðu sem er fornenskt sagnaljóð frá fyrri hluta 8. aldar og hefur varðveist frá því um árið 1000. Þetta er lengst sagnaljóða á fornensku og eitt það elsta sem varðveist hefur í hinum enskumælandi heimi.

Innan Stóra-Bretlands er merkur hópur rithöfunda hins vestræna heims. Söguþræðir og aðalhetjur úr þekktum breskum bókmenntum, allt frá Shakespeare og Chaucer til Orwell, J.K. Rowling og Tolkien, eru stór hluti af menningu samfélagsins.

Ferðamálaráð Bretlands heldur úti á heimasíðu sinni leiðarvísi yfir úrval bókmennta Bretlands (visitbritain.com). Þar má finna nokkra helstu rithöfunda Bretlands í gegnum tíðina, verk þeirra og ýmsar áhugaverðar staðreyndir:

Geoffrey Chaucer (1340-1400) er þekktastur fyrir sagnasafnið Canterbury Tales (1476) í bundnu máli. Þar segir frá hópi pílagríma sem taka þátt í frásagnakeppni á leið sinni til Canterbury til að stytta sér stundir á ferðalaginu.

Ungur að árum gerðist Chaucer opinber starfsmaður Elizabeth greifynju af Ulster. Tveimur árum síðar, þá aðeins nítján ára, barðist hann í Hundrað ára stríðinu í Frakklandi og var tekinn til fanga. Sterkt tengslanet við aðalinn varð til þess að Edward III veitti aðstoð sína við greiðslu lausnargjalds, og var Chaucer sleppt úr prísundinni.

Chaucer er fyrsti rithöfundurinn sem jarðsettur er í Poets‘ Corner í Westminster Abbey í London, þar sem nú er grafreitur margra þekktra rithöfunda, skálda og leikritahöfunda.

1474 – fyrsta prentvélin var tekin í notkun og gerði það auðveldara að dreifa breskum bókmenntum, sem þá var hægt að prenta í fyrsta skipti í Bretlandi.

William Shakespeare (1564-1616):


 „ To be, or not to be; that is the question“

Shakespeare er hvað þekktastur fyrir leikritin sem hann samdi, Romeo and Juliet (1597), A Midsummer Night´s Dream (1600) og Hamlet (1603), og svo mætti lengi telja. Hins vegar er Love´s Labour´s Lost (1598) fyrsta verkið sem gefið var út undir nafni hans, og segir okkur að það var þá þegar orðið vörumerki.

Enginn veit með vissu nákvæman fæðingardag Shakespeare því skráning var frekar óreiðukennd á þeim tíma. Vitað er að hann var giftur og eignaðist þrjú börn. Hann varð mjög auðugur og þekktur fyrir verk sín, frægðarsól hans skein um heim allan og gerði hann að einum frægasta rithöfundi sögunnar.

Leikhópur Shakespeare byggði sitt eigið leikhús sem nefnt var The Globe, eða Heimurinn, og var undir verndarhendi krúnunnar. Shakespeare lést árið 1616 og var jarðsettur í grafreit við The Holy Trinity Church í Stratford-upon-Avon.

Hægt er að heimsækja Globe Theatre í London sem er fullkomin leið til að upplifa hvernig leikhús gætu hafa verið á tímum Shakespeare. Undir leikhúsinu er sýning með gnægð upplýsinga um þennan fræga höfund og verk hans.

1709 – á tíma Önnu drottningar var gefin út bókin „Qeen´s Royal Cookery Book“. Bókin innheldur mataruppskriftir, leyndarmál hins konunglega eldhúss og leiðbeiningar um hvernig gera má snyrtivörur.

Daniel Defoe (1660-1731):

„Books are useful only to such whose genius are suitable to the subject of them“

Þekktasta verk Defoe er sagan af Robinson Cruso (1719); ferðalangur strandar á eyðieyju og honum tekst að lifa af með hjálp félaga síns Friday. Defoe er einnig þekktur fyrir fleiri sögur eins og The fortunes and misfortunes of the famous Molly Flanders (1722), sem skrifuð er í fyrstu persónu um fall og endurlausn konu á 17. öld, og Roxana: The fortunate Mistress (1724), önnur skáldsaga hans þar sem söguhetjan er kona.

Upprunalegt nafn hans var „Foe“ en síðar bætti hann við „De“ framan við svo það hljómaði virðulegar. Defoe lifði fjölbreyttu lífi og hóf að vinna við kaupmennsku, ákveðinn í að ná árangri í viðskiptalífinu, en það átti ekki fyrir honum að liggja og hann endaði í gjaldþroti. Hann byrjaði seint að skrifa og fyrsta bók hans, „Robinson Krúsó“, kom út þegar hann var 59 ára.

Defoe var oft hætt kominn en lifði af Pláguna 1665, Eldana miklu í London 1666 og slapp naumlega við hengingu vegna þátttöku í uppreisninni „The Battle of Sedgemoor“ 1685. Minnisvarði um Defoe er við grafreit hans í Bunhill Fields í London.

1755 – það ár kom út ein af þekktustu orðabókum sögunnar, „Dictionary of the English Language“, eftir Samuel Johnson, og innheldur 42.773 orð.

Jane Austen (1775-1817):

„A lady‘s imagination is very rapid; it jumps from admiration to love, from love to matrimony in a moment“

Fyrsta bók Austen var Sense and Sensibility (1811), og aðeins tveimur árum seinna kom út bókin Pride and Predjudice (1813), „Hroki og hleypidómar“, sem er sennilega eitt þekktasta verk hennar. Ótal bækur hafa verið skrifaðar í gegnum tíðina sem byggja á þeirri sögu; einnig kvikmyndir og sjónvarpsþættir.

Aðeins fjórar af sex bókum Austen voru gefnar út meðan hún lifði. Bækurnar Persuasion (1818) og Northanger Abbey (1818) komu út ári eftir dauða hennar. En það sem er merkilegra er að allar sex bækur Austen voru gefnar út undir dulnefni, og þrátt fyrir að sögur hennar hafi allar fjallað um ástir og hjónabönd, gekk hún sjálf aldrei í hjónaband.

Austen var ein af sjö systkinum og byrjaði að skrifa strax á unglingsárum. Bróðir hennar hjálpaði henni að semja um útgáfu fyrstu bókarinnar. Hús Jane Austen í Hampshire er í dag safn, og opið fyrir almenning. Á British Library er varðveitt skrifborð hennar sem nýttist til skáldskapar og við bréfaskriftir.

1802 – bókmenntatímarit fara að birtast og fjöldi útgefinna bóka, tímarita og fræðigreina eykst hratt.

Charles (John Huffam) Dickens (1812-1870):

„Darkness is cheap, and Scrooge liked it“

Dickens skrifaði 15 vinsælar skáldsögur á meðan hann lifði og óteljandi smásögur og greinar. Meðal helstu útgefinna verka hans eru Oliver Twist, saga munaðarlauss drengs sem þola mátti mikið harðræði. Sagan var upphaflega birt mánaðarlega (1837-39) sem framhaldssaga, David Copperfield var einnig fyrst birt mánaðarlega sem framhaldssaga (1849-50) og sömuleiðis Great Expectations sem birt var vikulega (1860-61).

A Christmas Carol (1843) er sagan um hinn harðbrjósta Ebenezer Scrooge sem hafði andstyggð á jólunum, og átti hún samstundis velgengni að fagna. Jólasagan hefur verið endurútgefin og kvikmynduð ótal sinnum, sviðsett sem leikrit, lesin upp í útvarpi og gerðir eftir henni framhaldsþættir í sjónvarpi.

Dickens ólst upp við fátækt, og þurfti 12 ára að gera hlé á skólagöngu sinni til að styðja við efnahag fjölskyldunnar. Faðir hans var hnepptur í skuldafangelsi og Dickens sendur til vinnu í verksmiðju. Þetta tvennt endurspeglaðist í skrifum hans síðar meir. Ungur að árum hóf hann ritferil sinn sem blaðamaður, en síðar skrifaði hann leikrit, ferðabækur og enn síðar skáldsögurnar sem hann varð þekktur fyrir. Grafreit hans má finna í Westminster Abbey, Poets‘ Corner.

1837 – við upphaf Viktoríutímabilsins er óbundið mál vinsælasta form skáldskapar á enskri tungu.

Arthur Conan Doyle (1859-1930):

„When you have eliminated all which is impossible, then whatever remains, however improbable, must be the truth“

Doyle er sennilega hvað þekktastur fyrir sögurnar um einkaspæjarann Sherlock Holmes sem fyrst birtist í bókinni A study in Scarlet (1887) en í þeirri bók er segir félagi hans, Doctor Watson, söguna. Fleiri vel þekkt ævintýri Sherlock Holmes má meðal annars finna í bókunum The Hound of the Baskervilles (1902) og The Valley of Fear (1915).

Persónan Sherlock Holmes birtist í fjórum skáldsögum og 56 smásögum. Bæði Doyle og Holmes hafa verið innblástur fyrir marga rithöfunda. Fjöldi sjónvarpsþátta og kvikmynda hafa verið byggðar á persónum Doyle, Sherlock Holmes og Doctor Watson.

Arthur Conan Doyle fæddist í Edinborg, Skotlandi og hóf skriftir meðan hann lærði til læknis. Smásögur hans um Holmes voru mjög vinsælar til birtingar í virtum dagblöðum og tímaritum. Þessi skáldsagnarpersóna bjó við 221B Baker Street í London á árunum 1881-1904. Í dag er þar viðamikið safn tileinkað Sherlock Holmes og Arthur Conan Doyle.

1939-45 – seinni heimstyrjöldin hafði mikil áhrif á skáldskap, aðallega ljóðagerð. Enn í dag er hún aðalefni breskra bókmennta.

Eric Arthur Blair - skrifaði undir nafninu George Orwell (1903-1950):

„Progress is not an illusion, it happens, but it is slow and invariably disappointing“

Þekktustu bækur Orwells voru The Animal Farm (1945) og Nineteen Eighty-Four (1949) og voru báðar sögurnar kvikmyndaðar nokkru eftir að þær komu út. Hann skrifaði einnig ótal smásögur og greinar, en ekki síður leikrit og kvikmyndahandrit.

Orwell fæddist í Bengal á Indlandi en flutti ungur að aldri með móður sinni og systur til Englands. Eftir námsár sín þar fór hann til Burma þar sem hann gekk til liðs við lögreglu Breska heimsveldisins (The Indian Imperial Police) og bjó þar í fimm ár áður en hann sneri aftur til Englands.

Orwell var hvað þekktastur sem skáldsagnarithöfundur en hann var einnig afkastamikill greinahöfundur, blaðamaður og gagnrýnandi. Pólitísk afstaða hans gegn alræðisstefnu er augljós í skrifum hans.

20. öldin – ris óhugnanlegra bókmennta með birtingu á verkum eins og Brave New World (1932) eftir Aldous Huxley og Lord of the Flies (1954) eftir William Golding.

John Ronald Reuel Tolkien (1892-1973):

„A single dream is more powerful than a thousand realities“

J.R.R. Tolkien er höfundur hinna geysivinsælu bóka The Hobbit (1937), The Lord of the Rings (1954-55) og The Silmarillion (1977) sem sonur Tolkiens gaf út eftir andlát hans. Silmarillion er frásögn í fimm hlutum sem gerist í sagnaheimi „Hobbitans“ og „Hringadróttinssögu“.

Árið 1999 var „Hringadróttinssaga“ valin vinsælasta bók aldarinnar af viðskiptavinum Amazon.com. Árið 2001 var sagan kvikmynduð; fyrsti hluti af þremur, og á árunum 2012-1014 var þríleikurinn „Hobbitinn“ sýndur í kvikmyndahúsum víða um heim.

Tolkien er talinn vera faðir nútíma fantasíu á sviði bókmennta. Árið 2008 var hann í sjötta sæti af 50 í vali hins virta dagblaðs The Times á bestu rithöfundum Bretlands.

Tolkien fæddist í Orange Free State í Suður Afríku en flutti til Englands aðeins þriggja ára gamall. Frá unga aldri bjó hann til ýmis tungumál sem urðu svo lykillinn að þeim þjóðháttum sem umlykja og gæða sögur Tolkiens lífi.

1997 – kom fyrsta bókin um Harry Potter út. Síðan þá hafa bækurnar sett sölumet allra tíma.

Joanne Kathleen Rowling (1965-):

„I would like to be remembered as someone who did the best she could with the talent she had“

J.K. Rowling varð fræg þegar fyrsta bókin um Harry Potter kom út „Harry Potter og viskusteinninn“, Harry Potter and the Philosopher‘s Stone (1997). Ellefu ára kemst Harry Potter að því að hann er galdrakarl, og segir bókin frá yngri árum hans og fyrsta ári í skóla fyrir galdramenn og galdrakonur, Hogwarts skóla. Á árunum 1988-2007 komu svo út sex framhaldsbækur um Potter.

Sögurnar um Harry Potter hafa verið kvikmyndaðar, og er hægt er að fara í skoðunarferð um Warner Bros kvikmyndaverið í London að skoða tökustaði myndarinnar. Þar má meðal annars fara um borð í Hogwart Express lestina, heimsækja skrifstofu Dumbledore og stóra samkomusalinn í Hogwart skólanum. Ýmsir fleiri staðir í London tengjast sögunum um galdrastrákinn knáa.

Rowling er fædd í Suður-Englandi. Á þeim árum sem hún hóf að þróa hugmyndina að Harry Potter og vann að ritun fyrstu sögunnar var hún undir miklu persónulegu álagi; gekk í gegnum skilnað, missti móður sína og flutti búferlum til Skotlands.

Bækurnar um Harry Potter hafa selst í yfir 450 millijónum eintaka, verið seldar um víða veröld og þýddar á 74 tungumál. Bækurnar hafa haft mikil menningarleg áhrif, bæði á skáldskap, kvikmyndir og nútímamenningu. Sem dæmi má nefna að nú má finna orðið Muggles (á íslensku „muggar“ sem þýðir venjulegt fólk án galdrahæfileika) í enskri orðabók, Oxford English Dictionary.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira