logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepli: BANDARÍSKAR BÓKMENNTIR II. hluti

03/10/2017

Árin eftir fyrri heimsstyrjöldina settu mark sitt á stíl bókmenntanna. Sá stíll var mjög fjölbreyttur þar sem rithöfundar, leiðandi á sviði leikrita, ljóða og skáldsagna, hölluðust að djúptækum og tæknilegum tilraunum í sínum skrifum:

Rithöfundar skáldsagna fóru nýjar slóðir í skrifum sínum. Umfjöllunarefnið var samtíminn, nútímalegri og sálrænni nálgun en áður hafði sést, sem þróaðist svo í átt að byltingarkenndri samfélagsgagnrýni. Konur voru frumlegar og opinskáar í skrifum sínum, sem var óvanalegt á fyrri hluta 19. aldar.

Á 19. öld fór að bera á ljóðskáldum sem tóku fyrir samfélagsleg mein eins og kynþáttafordóma. Má þar nefna James Weldon Johnson (1871-1938), Nella Larsen (1891-1964), Langston Hughes (1902-1962), Jean Toomer (1894-1967), Zora Neale Hurston (1891-1960) og Countee Cullen (1903-1946) sem voru öll af afrískum uppruna. 

Skáldin Ezra Pound (1885-1972) og T.S. Eliot (1888-1965) voru framúrstefnulegir í sinni ljóðagerð og hlaut Eliot bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1948. Á þessum tíma komu fram margir mikilsvirtir rithöfundar. Meðal þeirra voru F. Scott Fitzgerald (1896-1940) sem skrifaði Hinn mikli Gatsby, „The Great Gatsby“ (1925), William Faulkner (1897-1962) sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1949 og John Steinbeck (1902-1968) sem skrifaði m.a. Þrúgur reiðinnar, „The Grapes of Wrath“ (1939), og Mýs og menn, „Of Mice and Men“ (1937). Steinbeck hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1962.

Einnig voru skrifaðar skáldsögur um valdníðslu auðvaldsins gagnvart verkalýðnum og urðu þeir rithöfundar allmargir. John Dos Passos (1896-1970) var einn þeirra. Hann skrifaði m.a. „Manhattan Transfer“ (1925) og trílógíuna „U.S.A.“ (1930-36). Hann nýtti sér ýmsar nýjungar í frásagnarlist; skrifaði út frá myndrænu sjónarhorni og í fréttastíl.

Eftir seinni heimsstyrjöldina kom fram ný kynslóð rithöfunda, svæðisbundnir minnihlutahópar með ný samfélagsleg einkenni. Meðal yngri rithöfunda voru afkomendur innflytjenda, margir hverjir gyðingar eða af afrískum uppruna, og loks konur, sem með tilkomu femínisma höfðu fengið nýja rödd. 

Þrátt fyrir ríkjandi íhald eftirstríðsáranna voru þeir rithöfundar sem fengu mesta athygli fyrir verk sín samkynhneigðir eða tvíkynhneigðir og í verkum þeirra birtist sameiginlegt, stundum myrkt þema. 

Tennessee Williams (1911-1983) var leikskáld. Verk hans voru þýdd á fjölmörg tungumál og náðu vinsældum víða um heim. Hann fékk Pulitzer verðlaun fyrir verkið „Cat on a Hot Tin Roof“ (1955) og náði kvikmyndin sem gerð var eftir bókinni einnig miklum vinsældum. 

Truman Capote (1924-1984) var rithöfundur og leikritahöfundur. Eitt af hans bestu verkum Morgunverður á Tiffany‘s, „Breakfast at Tiffany´s“ (1958), var kvikmyndað nokkrum árum eftir að það kom út.

Paul Bowles (1910-1999) var þekkt tónskáld, þýðandi og rithöfundur. Hann bjó seinni hluta ævi sinnar í Tangier Marokkó og skrifaði þar sína fyrstu skáldsögu, „The Sheltering Sky“ (1949) sem varð metsölubók og kvikmynduð rúmum fjörtíu árum síðar.

James Baldwin (1924-1987) leikskáld og rithöfundur skrifaði m.a. „Go Tell it on the Mountain“ (1953). Hann gegndi mikilvægu hlutverki í bókmenntasögunni vegna mælsku sinnar og ástríðu í kynþáttaumræðu Bandaríkjanna, sérstaklega á seinni hluta sjötta áratugarins og fyrri hluta þess sjöunda.

Bandarískir rithöfundar fóru í auknum mæli að taka fyrir þau djúpstæðu áhrif sem heimsstyrjöldin síðari hafði á þjóðina og notuðu til þess bæði raunsæi og ýktan skáldskap. Fáránleiki og fantasía, undirliggjandi tortryggni milli menningarheima, ofsóknarkennd og skopstæling voru áberandi, og rithöfundar afneituðu þeirri hefð að endurspegla samfélagið.

Þegar árásin á Hiroshima var gerð fundu yngri rithöfundar að raunsæi nægði ekki til að sýna afleiðingar martraðar sem stríðið olli. Þeir drógu fram fáránleikann með satíru, svörtum húmor og hryllingi. Þar var Víetnamstríðið engin undantekning. 

Rithöfundar þess tíma áttu það sameiginlegt að skrifa um þá sem stóðu utan við samfélagið. Jack Kerouac (1922-1969) skrifaði „On the Road“ (1957) sem náði tíðarandanum mjög vel og hafði víðtæk menningarleg áhrif. Slíkt hafði ekki sést frá því að „The Great Gatsby“ kom út 1925. 

 
John Updike (1932-2009) var margverðlaunaður rithöfundur og þekktastur fyrir vandað raunsæi en nákvæma lýsingu á smábæjarlífi bandarískrar miðstéttar.

J.D. Salinger (1919-2010) ávann sér hylli gagnrýnenda og lof aðdáenda fyrir söguna „Catcher in the Rye“ (1951).   

       
Neyslusamfélag og menningarárrekstrar 7. áratugarins knúðu á nýjar leiðir til skáldsagnaskrifa; ritstíl sem svaraði breyttum tímum. Póstmódernismi, þema átroðnings og vænisýki, fantasía og aukið ofbeldi er meðal þess sem finna má í verkum þessa tíma.

Joseph Heller (1923-1999) skrifaði „Catch-22“ (1961) sem er ein markverðasta gagnrýni á seinni heimsstyrjöldina. Bókin varð mjög vinsæl og kvikmynduð um 9 árum síðar.

Kurt Vonnegut, Jr. (1922-2007) var rithöfundur sem segja má að hafi verið forlagatrúar með nútímasýn á mannlegt samfélag. Hann skrifaði m.a. „Slaughterhouse-Five“ (1969) þar sem hann byggir á eigin reynslu sem stríðsfangi í Dresden Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni.

Á þessum tíma voru einnig skrifaðar myrkar og sögulegar skáldsögur sem fjölluðu um þrælauppreisnina fyrir tíma borgarastyrjaldarinnar í Bandaríkjunum eða hryllileg fjöldamorð nasista á gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Raddir rithöfunda af gyðingaættum og frá suðurríkjum Bandaríkjanna fundu sér farveg í skáldsagnaformi og voru kvenrithöfundar þar engin undantekning.

Einn áhrifamesti rithöfundur 8. áratugarins var Raymond Carver (1938-1988). Hann skrifaði aðallega raunsæjar smásögur og ljóð um líf hins vinnandi fátæka manns sem endurspeglaði líf hans sjálfs. Þekktustu verk hans eru Það sem við tölum um þegar við tölum um ást, „What We Talk About When We Talk About Love“ (1981), og „Cathedral“ (1983).

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira