logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - Í brennidepli: SÆNSKAR BÓKMENNTIR

06/06/2017
Ikea, sænskar kjötbollur, Abba, Astrid Lindgren, Lína langsokkur, Emil í Kattholti, August Strindberg, Selma Lagerlöf, Ingmar Bergman, Greta Garbo, Volvo, stöðuvötn . . . þetta, og meira til, er eitthvað sem flestir tengja við Svíþjóð.


Svíþjóð er þingbundið konungsríki og er sænska konungsveldið meðal þeirra elstu í Evrópu. Árið 1980 varð Svíþjóð fyrsta konungsríkið til að breyta arftakavenjum sínum þannig að konungborinn frumburður yrði ríkisarfi án tillits til kyns.

Frá 1983 hafa Svíar haldið upp á þjóðhátíðardaginn 6. júní (dagur sænska fánans). Þessi dagsetning vísar til þess þegar Gustav Vasa var krýndur til konungs árið 1523. Þann dag var hornsteinn lagður að sjálfstæði Svíþjóðar og á þeim degi, 6. júní árið 1809, var ný og mikilvæg stjórnarskrá skjalfest.

Upprunalega kemur hugmyndin að þessum þjóðhátíðardegi frá Artur Haxelius sem stofnaði Skansen í Stokkhólmi, elsta útisafn heims, 1891, og þar hélt hann þennan dag hátíðlegan árvisst allt frá 1891. Á alþjóðlegu vörusýningunni í Chicago 1893 kynntu Svíar hins vegar Jónsmessu sem eins konar þjóðhátíðardag, þannig að á þeim tíma var haldið tvisvar upp á þjóðhátíðardag Svía.
Þjóðhátíðardagurinn var fyrst gerður að lögbundnum frídegi árið 2005.

Nóbelsverðlaunin eru sænsk arfleifð Alfred Nobels (1833-1896) sem fann upp sprengiefnið dýnamít. Uppfinning hans ýtti undir neikvæða umfjöllun í fjölmiðlum, að ríkidæmi hans væri byggt á því að finna leiðir til fjöldamorða. Í kjölfarið tók Nobel þá ákvörðun að stærsti hluti eigna hans færi í að stofnsetja Nóbelsverðlaunin að honum látnum og veita ætti þau árlega, án aðgreiningar vegna þjóðernis.


Í erfðaskrá sinni vísaði Nobel því til sænsku akademíunnar að veita verðlaun úr sjóðnum á sviði bókmennta, eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði, en þeirrar norsku að veita friðarverðlaun. Fyrstu verðlaun Nóbels voru veitt árið 1901.

Eftirtaldir sænskir rithöfundar sem hlotið hafa Nóbelsverðlaun í bókmenntum: Selma Lagerlöf (1909), Verner von Heidenstam (1916), Erik Axel Karlfeldt (1931), Pär Lagerkvist (1951), Nelly Sachs (1966), Eyvind Johnson og Harry Martinson (1974), og Tomas Tranströmer (2011).

Áhugi á sænskum bókmenntum hefur aukist til muna á alþjóðlegum vettvangi undanfarin ár. Á árunum milli 2002 og 2015 jókst hlutfall þýðinga úr sænsku yfir á önnur tungumál um 50 prósent, frá 500 í næstum 800 titla. Þegar á heildina er litið voru um 9,000 titlar sænskra skáldsagna þýddir á önnur tungumál á þessum 13 árum.

Í dag eru sænskar bókmenntir þýddar á um 50 tungumál, einkum á þýsku, dönsku, norsku, ensku, hollensku, finnsku og frönsku. Skandinavískar glæpasögur, Nordic Noir, hafa verið mjög vinsælar hér á landi, að ótöldum barnabókmenntum.

Topp 10 listi yfir sænskar bækur, sögur um ást, hrylling, húmor og græðgi, sem vert er að lesa, samkvæmt sweden.se. Athugið að ekki hafa allar bækurnar verið þýddar á íslensku og fylgja því titlar bæði á frummálinu og á ensku:

Í leyfisleysi, „Wilful Disregard“, „Egenmäktigt förfarande“ (2013) eftir Lena Andersson. Kærleikur, ástríður og völd tekið fyrir á hispurslausan hátt með húmorinn að vopni.

„April Witch“, „Aprilhäxan“ (1997) eftir Majgull Axelsson. Bókin fjallar um samband sem einkennist af dramatík með dularfullu ívafi.

Símon og eikurnar, „Simon and the Oaks“, „Simon och ekarna“ (1985), eftir Marianne Fredriksson. Áhrifamikil saga þar sem kærleikur og hið illa takast á í skugga seinni heimstyrjaldarinnar, en bókin var kvikmynduð árið 2011.

Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf, „The Hundred-Year-Old Man Who Climbed Out of the Windwow and Disappeared“, „Hundraåringen som klev ut genom fönstret och försvann“ (2009), eftir Jonas Jonasson. Ævintýraleg og mannleg saga sem kitlar hláturtaugarnar, bókin hefur einnig verið kvikmynduð.

Allt sem ég man ekki, „Everything I Don't Remember“, „Allt jag inte minns“ (2015), eftir Jonas Hassen Khemiri. Grípandi saga um kærleika og minnið, bæði ljúfsár og fyndin í senn. 

Gösta Berlings saga, „Gösta Berling's Saga“, „Gösta Berlings saga“ (1891), fyrsta skáldsaga Nóbelverðlaunahafans Selmu Lagerlöf. Ófullkomleiki mannsins og hverfulleiki ástarinnar er þungamiðja sögunnar.

„Let the Right One In“, „Låt den rätte komma in“ (2004), eftir John Ajvide Lindqvist. Blanda af samfélagslegu raunsæi og vampíruhrylling, bókin var kvikmynduð 2008.

Rokkað í Vittula, „Popular Music from Vittula“, „Populärmusik från Vittula“ (2000), eftir Mikael Niemi. Höfundur byggir söguna á uppvaxtarárum sínum í Pajala og kryddar með miklum húmor.

Heimaeyjarfólkið, „The People of Hemsö“, „Hemsböerne“ (1887), eftir August Strindberg. Sagan lýsir gömlum lifnaðarháttum á Hemsö, í eyjaklasa Stokkhólms, og endurspeglar heimþrá höfundar á árum hans í Þýskalandi og Frakklandi.

„The Serious Game“, „Den allvarsamma leken“ (1912), efir Hjalmar Söderberg. Klassísk saga sem fjallar um ást, tálsýn og uppgjöf. Bókin gerist um aldamótin 1900 og er sett í sögulegt samhengi þess tíma.

Þess má geta að Landsbókasafn Svíþjóðar, Kungliga biblioteket, hefur verið starfandi frá árinu 1661 og er ríkisrekið með höfuðstöðvar sínar í Humlegården í Stokkhólmi. Safnkosturinn er um 18 milljónir eintaka, sem fylla hyllukílómetra, og nær 10 milljónir stunda af hljóð- og hreyfimyndaupptökum.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Nordicom-Sweden‘s Media Barometer á lestrarhegðun Svía 2004-2015 kemur í ljós aukinn dagblaðalestur á netinu og vinsældir samfélagsmiðla eru meiri en áður. Lestur rafrænna bóka er enn frekar fágætur og velja fleiri að lesa bækur á hefðbundnu formi.

Meira en þriðjungur Svía á aldrinum 9-79 ára les bækur almennt og hefur hlutfallið haldist nokkuð jafnt í gegnum tíðina. Hinn hefðbundni lesandi rafbóka er oftast karlmaður á aldrinum 25-44 ára sem býr einn og er barnlaus.

Dæmigerðir lesendur rafbóka eru einnig miklir neytendur annarra rafrænna miðla. Þó nota þeir ekki sértækar rafbækur heldur spjaldtölvur eða snjallsíma. Stærsti lesendahópur bóka á pappírsformi í Svíþjóð eru skólabörn eða eftirlaunaþegar, og konur lesa frekar bækur en karlar.
Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira