logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

BÓKASAFN - í Brennidepli: HOLLENSKAR BÓKMENNTIR

03/01/2017

Vindmyllur, tréklossar, flatlendi, síki, túlípanar og hjólreiðastígar, Van Gogh, Rembrandt og Vermeer, er meðal þess sem kemur upp í hugann þegar Holland ber á góma. Á sviði bóka er það Dagbók Önnu Frank (1929-1945) frá seinni heimsstyrjöldinni, áhrifamikil og ómetanleg heimild um aðstæður gyðinga og ofsóknir nasista á hendur þeim.

Hollenskar bókmenntir koma hins vegar víðar að, frá Belgíu, Suriname í Suður Ameríku, hollenskum eyjaklasa í Karíbahafi. Einnig frá svæðum þar sem áður var töluð hollenska, eins og Frakklandi, Suður Afríku og Indónesíu.

Frá upphafi miðalda var mállýska alþýðunnar, hollenska, einskorðuð við óskráða sagnahætti og þjóðlagasöngva. Elstu minjar ritaðra texta gömlu tungunnar eru sálmar frá upphafi 10. aldar.

Í dag eru Willem Frederik Hermans (1921-1995), Gerard Reve (1923-2006) og Harry Mulisch (1927-2010) helstu bókmenntarisar Hollands. Þetta eru rit-höfundar sem vakið hafa athygli á hollenskum bókmenntum á alþjóðavettvangi.

Verk þeirra hafa verið höfð til hliðsjónar við skilgreiningu hollenskrar menningar 21. aldarinnar. Hermans, Reve og Mulisch eiga það helst sameiginlegt að skrif þeirra eru undir áhrifum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Hermans skrifaði á sannfærandi hátt um fjandsamlegt umhverfi og mikla ringulreið undir hernámi nasista í seinni heimsstyrjöldinni, má þar nefna bækurnar Darkroom of Damocles (1958) og No More Sleep (1966).

Fyrsta skáldsaga Gerards Reve var nýlega þýdd á ensku, The Evenings,(1947). Bókin er nútíma meistaraverk sem gerist í Hollandi rétt eftir seinni heimsstyrjöldina.

Kvenrithöfundar Hollands áttu ekki fylgi að fagna í heimi rithöfunda hér áður fyrr, þar sem skrif þeirra þóttu ekki nógu áhugaverð og féllu ekki að hugmyndafræði þess tíma.

Á tímabilinu milli heimsstyrjaldanna tveggja voru kvenrithöfundar í Hollandi taldir ógnun við samfélagið þar sem sterk fjölskylduímynd var ráðandi, skrif þeirra endurspegluðu djúpa óhamingju með húsmæðrahlutverkið.

Seinna þróaðist umfjöllunarefnið út í vonbrigði ógiftra útivinnandi kvenna, og enn síðar út í tvöfeldni samfélagsins gagnvart kvenfrelsi, kynferði og kynlífi.

Ákveðin þöggun var í gangi hjá bókmenntaelítu þess tíma, sem samanstóð af karlmönnum. Þeir snerust öndverðir gegn því sem kvenrithöfundar höfðu fram að færa og hvöttu aðra til að sniðganga rit þeirra.

Hins vegar voru bækur kvenna mjög vinsælar og stór hluti bókmenntamarkaðarins. Flestar metsölubækur um aldamótin 1900-1930 voru eftir konur.

Í dag hafa konur fengið uppreisn æru og má þá nefna Connie Palmen sem er ein af fremstu rithöfundum Hollands. Hún vann til bókmenntaverðlaunanna Libris Prize 2016, stærstu verðlauna landsins, fyrir skáldsögu sína You Said It. Bækur hennar fjalla um ástina og eru taldar áleitnar og óhefðbundnar.

Fleiri þekktir hollenskir rithöfundar eru m.a. Hella Haasse (1918-2011), Cees Nooteboom (1933-), Herman Koch (1953-), Renate Dorrestein (1954-) og Arnon Grunberg (1971-).


Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira