logo
  • Virðing -
  • Jákvæðni -
  • Framsækni -
  • Umhyggja

Í Brennidepli - spænskar bókmenntir

30/06/2016

Bókmenntir hafa gegnt mikilvægu hlutverki í sögu Spánar.  Þær spanna allt frá hetjusögum til súrrealisma, frá ótrúlegum ævintýrum Don Kíkóta til spænsku borgarastyrjaldarinnar. Líkt og á Íslandi hefur verið lögð mikil áhersla á bókmenntir og bókmenntakennslu skólum Spánar til þessa.

Upphaf spænskra bókmennta má rekja aftur til 12. aldar að „El Cantar del Mio Cid“, hetjuljóði sem ritað var á rómanskri tungu og segir sögu þjóðhetjunnar Rodrigo Díaz de Vivar. Auk þess að vera elsta hetjuljóð Spánar telst það einnig einstakt, því það hefur varðveist nánast í heilu lagi.

Saga Don Kíkóta er eftir einn mikilvirtasta rithöfund 16. aldar, Miguel de Cervantes Saavedra, og fjallar um vitfirrtan riddara. Bókin skipar veigamikinn sess í spænskri bókmenntahefð og telst meðal helstu bókmenntaafreka heims.

Federico García Lorca skrifaði Sígaunaljóðin á tímum mikilla umbreytinga á Spáni og er eitt þekktasta skáld Spánverja á 20. öldinni. Á þeim tíma má segja að spænskir rithöfundar hafi farið að þróa sinn eigin persónulega stíl í stað þess að fylgja einhverri hreyfingu. Skáldsögur urðu hvað vinsælastar og félagsleg málefni voru helsta umfjöllunarefnið, þá sérlega þau sem tengdust daglegu lífi á tímum spænsku borgarastyrjaldarinnar (1936-1939) og lífinu undir einræðisstjórn Francos, sem tók við.

Í dag býr Spánn yfir bókmenntum á fjórum tungumálum, sem er í samræmi við stjórnarskrá þingsins eftir tíð Francos, en frá 1978 voru tungumál Katalóníu, Baskalands og Gallíu kennd aftur í skólum. Eftir miklar umbreytingar úr einræði í lýðræði var ritskoðun efnis hætt og forboðið umfjöllunarefni frá tímum einræðis kom fram í dagsljósið, þ.e. dramatík, háð og líferni sem ekki hafði hlotið náð fyrir augum ritskoðara.

Nokkrir vinsælustu rithöfundar Spánar í dag:

Carlos Ruiz Zafón (1964-).  Bækur hans eru fantasíur sem gerast oftar en ekki á sögulegum tímum í heimaborg hans Barcelóna, eins og þríleikurinn Skuggi vindsins (2005), Leikur engilsins (2009), og Fangi himinsins (2014).

Ana María Matute (1926-2014).  Skrif hennar einkenndust gjarnan af upplifun hennar og reynslu af spænsku borgarastyrjöldinni.  Bókin Skólaus á öðrum fæti (2013) er tvímála útgáfa á íslensku og spænsku.

Javier Marías (1951-)  fléttar oft undirferli, svik, ást og fjarstæða vitneskju í sögur sínar. Nefna má  verðlaunaskáldsöguna Ástir (2012).

Arturo Pérez-Reverte (1951-) skrifar sögulegar skáldsögur. Meðal bóka hans sem komið hafa út á íslensku eru Dumasarfélagið (2003) og Refskák eða Bríkin frá Flandri (1996).

Ildefonso Falcones (1958-) er þekktur fyrir að byggja skáldverk sín á sögulegum grunni. Kirkja hafsins (2009) er fyrsta bók hans og gerist í Barcelóna á tímum hins illræmda spænska Rannsóknarréttar, og naut strax mikilla vinsælda.

Til baka

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira